Blogg

Í upphafi árs skoðum við gjarnan stóru myndina, hvað við ætlum að gera á árinu, hvar við erum stödd og okkar framtíðarsýn, hvert við ætlum að stefna til framtíðar.

Það er skynsamlegt að gera okkur fyrst mynd af raunveruleikanum og reyna að sjá hann einsog hann er.

Flestir eru að vinna fyrir fyrirtæki eða stofnun sem við köllum skipulagsheild en það er hollt að skoða hana út frá mismunandi vinklum.

Hvert stefnir þessi skúta sem er skipulagsheildin. Myndræn nálgun hjálpar okkur hér, nota svokallaðar ímyndir.

Fyrsta myndin er maskína, er fyrirtækið okkar maskína sem spýtir út úr sér peninga? (Ráðgjafi einn lýsti fyrirtækinu svona.)

Þá veltir maður fyrir sér hve lengi endist vélin?

Er fyrirtækið að vaxa?

Gæti dæmið snúist við og vélin farið að gleypa peninga?

Önnur mynd gæti verið heili, er fyrirtækið að læra, svokallað lærdómsfyrirtæki og getur fyrirtæki lært? Það er auðvitað fólkið sem lærir en það er hægt að byggja upp þekkingu innan fyrirtækja sem er miðlað frá manni til manns. Fyrirtæki í hugbúnaðar og tæknigeiranum gera það til dæmis.

Er fyrirtækið að þróast, verður hæfi þess meira með hverju árinu?

Er fólkið að finna nýjar leiðir til að vinna hlutina og nýjar vörur til að markaðssetja?

Er það í stöðugri aðlögun að breytingum í umhverfinu?

Við getum líka horft á fyrirtækið út frá flæði, það má segja að það sé mikið í gangi hérna, þá er gott flæði í fyrirtækinu. Það er búið að straumlínalaga ferlin og þjálfa starfsfólkið í því að huga að hverju smáatriði. Gott flæði skilar jú meiri hagnaði en er það allt og sumt? Hversu lengi endist það? Er allt orðið svo fast að engu má breyta eða er stöðugt flæði í gangi?

Það er hægt að horfa á fyrirtækið út frá mismunandi sjónarhornum. Það að horfa einungis á krónur er of þröngt, flestir eru sammála um það.

En þegar á botninn er hvolft er mikilvægast af öllu að vita hvert eigi að stefna og hvað þarf til, það þarf ekki að vera svo flókið.

Sú bók sem veitt hefur mér mestan innblástur og hjálpað mér við að horfa á stóru myndina er án vafa Images of organization eftir Gareth Morganen hún veltir upp fjölda af ímyndum af fyrirtækjum en það er hægt að skoða fyrirtæki eða stofnanir út frá svo mörgum sjónarhornum eða myndum.